Heim Fréttir Fóru skáldaferð á Akranes

Fóru skáldaferð á Akranes

25
0

Nemar í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands fara á hverju vori í svokallaða skáldaferð þar sem farið er út fyrir höfuðborgina yfir eina helgi og unnið í ritsmiðju með vel völdum rithöfundi. Að þessu sinni var förinni heitið á Akranes með Bergþóru Snæbjörnsdóttur en fyrsta skáldsaga hennar, Svínshöfuð, sló heldur betur í gegn árið 2019. Áður hefur Bergþóra gefið út ljóðabækurnar Daloon dagar og Flórída en sú síðarnefnda var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017.

Á milli þess að vinna með skáldsagnaformið á Kirkjuhvoli spókuðu ritlistarnemar sig í bænum í sólinni og fóru meðal annars í Guðlaugu, á antík markað og út að borða á Galító en þar vakti hópurinn mikla athygli. Í hópnum var ein heimakona, Rannveig Lydia, betur þekkt sem Púsla, sem leiddi skáldin alla leið út að Elínarsæti og fræddi þau um þennan fallega bæ sem er svo nálægt Reykjavík að fólki á því miður til að yfirsjást hann. Mikil ánægja var í hópnum með ferðina og hver veit nema að Skaginn verði notaður sem efniviður í sögum þessara tilvonandi metsöluhöfunda. Hægt verður að lesa verk þeirra í smásagnasafninu Þægindarammagerðin sem kemur út um miðjan júní.

  • Berglind Ósk Bergsdóttir

Skilja eftir athugarsemd

Vinsamlegast sláðu inn athugasemdina þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér