Heim Vesturland - RSS skessuhorn.is Kári tapaði þriðja leiknum í röð

Kári tapaði þriðja leiknum í röð

12
0
kari-tapadi-thridja-leiknum-i-rod

Knattspyrnufélagið Kári sem leikur í 2. deild karla í knattspyrnu fór austur á Fáskrúðsfjörð í gær og lék við lið Leiknis í Fjarðabyggðarhöllinni. Eina mark leiksins kom strax á sjöttu mínútu þegar Björgvin Stefán Pétursson hamraði boltann í netið fyrir heimamenn. Káramenn fengu dauðafæri skömmu síðar til að jafna leikinn en boltinn fór rétt fram hjá. Andri Júlíusson, leikmaður Kára, skallaði boltann yfir markið eftir hornspyrnu í seinni hálfleik og undir lok leiks fékk Kári aftur gott færi þegar Ármann Ingi Finnbogason átti gott skot sem markvörður Leiknis varði vel og lokatölur 1-0 fyrir Leiknismenn.

Hart var barist í leiknum og alls fengu átta leikmenn gul spjöld í leiknum. Þá fékk fyrrnefndur Andri rautt spjald skömmu fyrir leikslok eftir glæfralega tæklingu og er kominn í tveggja leikja bann eftir að hafa fengið rautt spjald fyrr í sumar. Þess má geta að meðalaldur Káraliðsins í þessum leik var rétt í kringum 20 ár sem gerir það líklega að yngsta liði í sögu 2. deildar. Kári situr nú á botni deildarinnar með aðeins eitt stig eftir fimm umferðir en næsti leikur liðsins er gegn Fjarðabyggð sem er einu sæti ofar í deildinni með tvö stig og því ljóst að um svokallaðan sex stiga leik er að ræða. Leikurinn fer fram í Akraneshöllinni næsta laugardag og hefst klukkan 14.

Skilja eftir athugarsemd

Vinsamlegast sláðu inn athugasemdina þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér